Keppni á Euroskills 2023 lauk í dag, þar sem hátt í 600 keppendur frá 32 löndum, hafa beitt færni, snerpu og útsjónarsemi á Evrópumóti iðn- og verkgreina. Íslensku keppendurnir hafa byrjað hvern keppnisdag snemma – mætt fyrir klukkan 8:00 – fyrst þarf að yfirfara verkáætlun, stilla upp vinnusvæði, raða verkfærum og hafa til nesti. Því næst tekur keppnin við, sem getur staðið í allt að 8 klst. með matarhlé og stuttum hléum. Fjöldi þátttakenda í hverri keppnisgrein er mismunandi, að meðaltali eru það 12 einstaklingar, sem koma frá ólíkum löndum með ólíkar áherslur um vinnulag og framsetningu efnis. Öll eiga þau það þó sameiginlegt að vera fagfólk fram í fingurgóma, stoltir fulltrúar, sem eru komin til þess að keppa fyrir hönd þjóðar sinnar.
Sigurður Borgar Ólafsson hefur verið liðsstjóri íslenska hópsins hér í Gdansk. Hann tók sjálfur þátt í Euroskills árið 2018 í Ungverjalandi í framreiðslu. Sigurður Borgar þekkir því tilfinninguna að standa fyrir framan fullan sal af fólki og keppa fyrir hönd Íslands. Hann segir að hlutverk liðsstjóra sé fyrst og fremst að vera til staðar fyrir keppendur. „Hvort sem það er að skipuleggja liðsfundi, hlusta þegar þau þurfa að spjalla eða gefa þeim næði, þegar þau eru búin á því – eða bara að sækja Snickers,“ segir Sigurður Borgar og hlær.
Hann talar líka um mikilvægi þess að taka á móti keppendum þegar keppni líkur. „Þetta getur verið rosalegur tilfinningarússíbani þegar flautan glymur og keppnin er búin. Þá kemur spennufallið og þá er mikilvægt að vera til staðar. Fagna með keppendum og vera bara til staðar,“ segir liðsstjórinn.
Og það er akkúrat þannig sem dagurinn endaði hjá íslensku keppendunum. Rúmlega hundrað Íslendingar komu gagngert til Gdansk til þess að styðja við bakið á íslenska hópnum. Fagna með þeim, gleðjast yfir þessum merkilega áfanga – að hafa lokið keppni á Evrópumóti iðn- og verkgreina!
Til allra íslensku keppendanna segjum við TIL HAMINGJU!
Úrslit keppninnar verða svo kynnt á morgun við hátíðlega athöfn.
#EuroSkills2023 #SkillsIceland #TeamIceland #EuroSkills #EuroSkillsGdańsk #EuroSkillsGdańsk2023 #UnitedBySkills