Full einbeiting á meðan þúsundir ganga hjá

Spennan var í hámarki á öðrum keppnisdegi á Euroskills 2023 í Gdańsk. Á meðan sólargeislarnir baða gesti keppninnar, við heiðskíran himinn og 23 stiga hita, vinna keppendur hörðum höndum að verkefnum sínum í loftkældum sölum og tjöldum. Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig þeim tekst að halda einbeitingu á meðan tugir þúsunda gesta ganga hjá og taka myndir eða fylgjast með af áhuga. Fyrirkomulag keppninnar er svipað og á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, þar sem grunnskólahópum er boðið á keppnissvæðið, þar sem þau fá fræðslu um hinar ýmsu iðn- og verkgreinar. Það er því mikill fjöldi ungmenna sem hefur komið við á mótinu og stemningin er eftir því.

Landslið Íslands í iðn- og verkgreinum er ekki ýkja frábrugðið íslenska landsliðinu í frjálsum íþróttum. Liðið samanstendur af framúrskarandi fagfólki í sinni grein, ekki aðeins keppendur, heldur þjálfarar og aðstoðarþjálfarar, liðsstjóri og stuðningsfólk. Sem dæmi hefur hver og einn keppandi verið með sinn þjálfara og fjölskyldur sumra hafa einnig lagt leið sína á Euroskills í Gdańsk.

Sem dæmi eru Kári og Ásta – foreldrar Kristófers Daða sem er keppandi í pípulögnum – mætt til þess að styðja soninn. Það er gaman frá því að segja, að Kári Samúelsson er líka pípulagningameistari, svo hann þekkir fagið inn og út. Þeir feðgar eru auk þess að vinna saman í fyrirtæki sem Kári stofnaði, ásamt föður sínum, fyrirtækið er því með þrjá ættliði af pípulagningamönnum á sinni launaskrá.

Síðasti keppnisdagur er í dag, föstudaginn 8. september, þar sem úrslitin ráðast í 32 iðn- og verkgreinum.

Kveðja frá Íslenska hópnum í Gdańsk.