Náms- og starfsfræðsla

Til lengri tíma litið skilar bestum árangri að fræða ungt fólk og þjálfa í að taka sjálfstæðar ákvarðanir um nám og störf með tilliti til eigin áhuga og hæfileika.

Af hverju náms- og starfsfræðsla?

Nemendur verða færari í að takast á við breytilegar aðstæður, öðlast vitneskju um fjölbreyttar námsleiðir og fá innsýn í raunverulegt atvinnulíf.
Ekki bara val á námsleið, heldur nýtist til framtíðar og bætir hæfni í að afla upplýsinga og takast á við skil milli skólastiga eða skóla og atvinnu.
Tengsl við aukinn námsáhuga og skilning á gildi náms fyrir eigin framtíð. Og ekki síst markvissari ákvarðanataka og minna brottfall.

Tækifæri til að hitta og ræða við fólk sem er starfandi úti á vinnumarkaðnum hafa gríðarlegt gildi fyrir starfsþekkingu ungs fólks. Frásagnir þess geta vakið áhuga og hvatt nemendur til að íhuga störf sem þau hafa aldrei hugsað um eða jafnvel ekki heyrt um. Ef þú finnur rétta fólkið til að tala við nemendur þína mun eldmóður þeirra og ástríða fyrir starfinu, breyta náms- og starfsfræðslunni í eitthvað raunverulegt sem skiptir máli.

Hvernig er þetta gert annars staðar?

Náms- og starfsfræðsla er sérstök námsgrein í Noregi og hluti af hæfnistefnu þeirra í atvinnulífinu.
Finnar tvinna náms- og starfsfræðslu saman við aðrar námsgreinar grunnskóla auk skipulagðra starfskynninga.
Í Englandi eru átta viðmið rammi utan um æskilega náms- og starfsfræðslu og ráðgjöf í skólum.

Starfskynningar

Starfskynningar eru í mörgum tilfellum fyrstu kynni nemenda af atvinnulífinu og geta gert þau meðvituð um eigin áhuga og fjölbreytta möguleika.

Áhugasamir og vel undirbúnir nemendur eru lykill að vel heppnaðri starfskynningu ásamt því að gert sé ráð fyrir virkri þátttöku þeirra. Einnig er mikilvægt að upplýsa foreldra og fylgja verkefninu eftir að starfskynningardeginum loknum.

Ávinningurinn er margvíslegur;  nemendur kynnast atvinnulífinu út frá eigin áhuga, skólinn öðlast meiri þekkingu á nemendahópnum auk þess sem skóli og atvinnulíf tvinnast saman.

Það er mun skynsamlegra að gera eitthvað verklegt, svo maður sjái hvað maður er að koma sér inn í, en ekki bara sjá þetta á blaði einhversstaðar.

Náms- og starfsráðgjöf

Þjónusta náms- og starfsráðgjafa er í boði við langflesta grunn-, framhalds- og háskóla og víða innan atvinnulífsins.

Upplýsingar um fjölbreytt námsframboð, vinnumarkaðinn og alls konar hagnýt atriði sem mikilvægt getur verið að vita.

Náms- og starfsráðgjafi gæti aðstoðað við að líta á málin frá öðru sjónarhorni.

“Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund fólks um hæfileika sína, viðhorf og áhuga þannig að það geti notið sín í námi og starfi.”

Náms- og starfsráðgjöf má nálgast hjá Iðunni fræðslusetri, skólum og símenntunarstöðvum um land allt auk vefsvæðisins NæstaSkref.is.