Vel heppnað Starfastefnumót

Miðvikudaginn 25. október var í annað sinn haldið svokallað Starfastefnumót á Höfn í Hornafirði, spennandi samfélagsverkefni þar sem um 40 fyrirtæki og stofnanir af svæðinu tóku þátt.

Opið var fyrir gesti og gangandi lungann úr deginum auk þess sem nemendur grunnskóla mættu með kennurum sínum. Hvert fyrirtæki hafði sinn bás og var stemmningin með besta móti enda boðið upp á fróðlegt spjall, áhugaverða kynningu frá ungum frumkvöðli auk veitinga þar sem meðal annars voru grillaðar pylsur í hádeginu.

Undirbúningur var í höndum Nýheima þekkingarseturs, sveitarfélagsins, Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólans í Austur-Skaftafelli en nemendur hans sáu ekki síst til þess að stefnumótið tókst svo vel. Iðan fræðslusetur átti sína fulltrúa á svæðinu sem svöruðu spurningum varðandi iðn- og starfsnám.

Á Starfastefnumótinu var áhersla lögð á fjölbreytt tækifæri til náms og starfa og umræða um þróun starfsumhverfis í því skyni að vekja áhuga ungs fólks og sýna fram á fjölbreytt tækifæri til að skapa eigin framtíð.