„Frá hugmynd að fullunnu verki“

Grunnskóladagur Héðins fór fram föstudaginn 24. nóvember. Þá var áhugasömum nemendum úr Hafnarfirði boðið í heimsókn til að kynnast störfum í málmiðnaði og véltækni í sex mismunandi deildum fyrirtækisins; tæknideild, véladeild, renniverkstæði, plötuverkstæði auk rafsuðu og nýsköpunar.

Um 100 nemendur þekktust boðið og sáu alveg örugglega ekki eftir því en eftir stutta almenna kynningu á starfseminni fengu þau að fara í smærri hópum um fyrirtækið og kynnast helstu störfum og verkefnum, náminu sem þarf til að geta sinnt þeim og síðast en ekki síst fengu nemendur sjálfir að spreyta sig, til dæmis á suðuvél þar sem þau suðu kverkar á lítil stykki.

Umfjöllunarefnin og spurningar voru af ýmsum toga:

  • hvernig getur 100 ára gamalt fyrirtæki verið framúrskarandi í nýsköpun?
  • hvað fer fram niðri í skipum?
  • hvernig hefur tæknin breytt störfum rennismiða?
  • hver er munurinn á svörtu stáli og ryðfríu, laser og vatnsskurðarvél?

Þá fengu nemendur innsýn í þá byltingu sem orðin er í þjónustu við skip, sáu muninn á gömlum og nýjum rennibekkjum, kynntust öryggismálum og nutu góðra veitinga á borð við sykurpúða sem steiktir voru með eldvörpu!

Þannig var sannarlega nóg um að vera og ekki annað að sjá og heyra en nemendur væru hinir kátustu með heimsóknina. Frábært framtak hjá Héðni sem vonandi verður öðrum til eftirbreytni.