Heimsókn í Vatnagarða

Verkefninu „Verkin tala“ er haldið úti af Iðunni fræðslusetri en markmið þess er að kynna nemendum efstu bekkja grunnskóla þá miklu fjölbreytni sem er að finna úti í atvinnulífinu og styðja við náms- og starfsfræðslu og samstarf skóla og atvinnulífs.

Nýlega mættu tveir skólar; Kársnesskóli og Hólabrekku, í heimsókn í Vatnagarðana og tóku þátt í tvískiptu verkefni sem tengdist annars vegar bíliðngreinum en prent- og miðlunargreinum hins vegar. Í bílgreinahópnum setti hver nemandi saman rafknúinn lítinn bíl og snerti í þeirri vinnu á öllum þremur greinum bíliðna; bifvélavirkjun, bílamálun og bílasmíði auk grunnatriða rafmagnsfræði.

Í seinni hópnum snerist vinnan um grafíska miðlun, ljósmyndun, textagerð, upptökur og útgáfu. Þau hönnuðu veggspjöld og sóttu í prentsmiðju auk þess að prófa ýmsan búnað á borð við hljóðnema, ljós, klippiforrit og myndavélar en afrakstur þeirrar vinnu verður fljótlega aðgengilegur á YouTube rás Iðunnar.

Nemendum til aðstoðar var starfsfólk Iðunnar en alls tóku þátt 30 nemendur og unnu hörðum höndum heilan dag að alvöru afurðum, með alvöru verkfærum í öruggu umhverfi, undir leiðsögn fagfólks.

Afurðir verkefnisins eru í formi veggspjalda og fjarstýrðra bíla sem nemendur settu saman. Frábærir dagar í alla staði og full ástæða til að þakka kærlega öllum sem að komu.

Myndband frá starfskynningardögunum.