Tíu ástæður

Tíu ástæður þess að kjósa verklegt nám

Á unglingsárum getur verið snúið að ákveða hvert eigi að stefna í námi eða starfi. Hvernig er hægt að vita hvað hentar mér? Hér eru 10 rök fyrir því að velja iðn- eða verknám.

1. Góðir starfsmöguleikar

Það eru verklegu greinarnar sem oftast eru fyrstu kynni ungs fólks af atvinnulífinu – hvernig það virkar og hvaða kröfur eru gerðar. Að kynnast vinnu snemma getur verið þroskandi. Þar þarf að skila árangri með öðrum hætti en á skólabekk og er reynsla sem getur komið til góða síðar, bæði í námi og starfi.

2. Kemst fljótt út á vinnumarkaðinn

Flest bendir til viðvarandi skorts á iðn- og verkmenntuðu starfsfólki. Það þýðir að starfstækifæri innan þeirra greina eru mikil. Að auki er verkleg starfsreynsla mikilvæg og góð viðbót á ferilskrána. Við ráðningar er lögð áhersla á mikilvægi starfsreynslu í því skyni að verða eftirsóttur starfskraftur.

3. Val á milli fjölmargra starfsgreina

Í framhaldsskólanámi er hægt að velja á milli fjölmargra iðn- og verkgreina, með hliðsjón af áhuga hvers og eins. Alla jafna er um að ræða nám sem bæði fer fram í skóla og á vinnustað með tilheyrandi gagnlegum kynnum af atvinnulífinu.

4. Fljótari að komast í eigið húsnæði

Verklegt nám getur ýtt undir að fólk komist fyrr en ella í eigið húsnæði, ekki þarf að taka stórt námslán og þú kemur fyrr út á vinnumarkaðinn. Námslán geta haft ýmis konar áhrif við fyrstu íbúðarkaup fyrir utan hvað það tekur langan tíma að greiða þau upp.

5. Þarft ekki að taka stórt námslán

Í verklegu námi er minni þörf á námsláni af tveimur ástæðum; vegna styttri námstíma í skóla og þar sem þú færð borgað meðan á námi stendur. Tiltölulega fáir kjósa námslán samhliða verklegu námi og standa því betur að vígi þegar sækja þarf um önnur lán síðar s.s. vegna húsnæðis.

6. Færð laun á meðan þú ert í námi

Sem nemi á vinnustað færðu laun meðan á námi stendur. Launin eru hugsuð sem ákveðið hlutfall byrjunarlauna í viðkomandi starfsgrein og hækka eftir því sem líður á námið. Launin geta verið nokkuð breytileg á milli starfssviða.

7. Möguleiki á að stofna eigið fyrirtæki

Möguleikar á að stofna eigið fyrirtæki, að verklegu námi loknu, eru umtalsverðir. Þá þarf að bæta við sig meistararéttindum, um 40 eininga námi,  oftast í fjarkennslu með staðbundnum lotum. Þar lærist ýmislegt tengt stjórnun og rekstri sem nýtist ef áhugi er á að starfa sjálfstætt og/eða hafa fólk í vinnu.

8. Fjölmörg tækifæri til sí- og endurmenntunar

Verklegar greinar eru mjög góður undirbúningur fyrir frekara nám auk þess sem hægt er að ljúka stúdentsprófi samhliða eða í beinu framhaldi. Einnig geta svokallaðar háskólabrýr opnað leið að langskólanámi og fjölbreytt námskeið eru í boði til sí- og endurmenntunar.

9. Þjálfast í að leysa vandamál og vinna sjálfstætt

Oft er vanmetið gildi þess að kunna til verka. Í verklegu námi lærist að hugsa praktískt, nokkuð sem getur hjálpað til við að leysa ýmis verkefni sem mæta manni í lífinu, bæði heima og í vinnu. Þú verður einfaldlega góð/ur í að leysa málin upp á eigin spýtur og vinna sjálfstætt.

10. Þú lokar engum dyrum en opnar fleiri

Verknám getur opnað á ýmis tækifæri og það sem meira er, slíkt námsval lokar engum dyrum. Áframhaldandi nám er alltaf í boði og fjölmargar leiðir víða í skólakerfinu. Að kunna til verka opnar raunar fleiri leiðir hvað varðar þátttöku í atvinnulífinu og áframhaldandi nám en bóknám eingöngu. 

Byggt á efni af norsku vefsíðunni https://www.worldskills.no/