Ellefu íslenskar greinar á Euroskills

Euroskills 2023 verður haldin í Gdansk, Póllandi 5. – 9. september. Pólverjar brugðust við erfiðri stöðu þar sem Rússar voru reknir úr Worldskills Europe en keppnin sem vera átti í St. Pétursborg var tekin af þeim vegna innrásar og stríðs á hendur Úkraínu.

Ísland tekur þátt í ellefu greinum: Pípulögnum, matreiðslu, bakstri, framreiðslu, kjötiðn, hárgreiðslu, rafvirkjun, rafeindavirkjun, „industrial control“ (iðnaðarrafmagn), trésmíði og grafískri miðlun.

Ljóst er að afar stuttur tími er til stefnu fyrir þau sem munu taka þátt en oft eru keppendur valdir út frá frammistöðu á Íslandsmótinu Mín framtíð sem fer fram 16. til 18. mars í Laugardalshöll. Íslendingar hafa oft náð undraverðum og góðum árangri í keppninni en árið 2018 vann Ásbjörn Eðvaldsson til silfurverðlauna í rafeindavirkjun.

Keppnin fer fram í AMBEREXPO höllinni í Gdansk. Keppendur verða líklega um 600 talsins frá 31 Evrópulandi og munu keppa eða sýna færni sína í 45 – 50 iðn- og verkgreinum. Þá er von á um 100 þúsund gestum á keppnina.

Um Euroskills 2023 á YouTube