FYRIRMYND Í FAGINU

Rikka Sigríksdóttir (2021)

Bílamálari

Upplifun af námi

Ég útskrifaðist vorið 2020 úr bílamálaranum, fór í framhaldi af því í bifreiðasmiðinn og mun klára hann í desember næstkomandi. Vinnustaðanámið kláraði ég á frábæra verkstæðinu GB Tjónaviðgerðir. Í skólanum er grunnurinn að mestu verklegur, vegna þess að sem bílamálari lærir maður með því að gera. Í vinnustaðanáminu lærir maður að byggja ofan á þann grunn, ýmsar nýjar aðferðir og hefðir. Þegar ég ákvað að fara í þetta nám vissi ég ekkert um bíla og fannst það aðeins vandræðalegt, því margir sem voru með mér í tímum höfðu kannski alist upp í bílaheiminum. En eina sem ég gat gert í þeirri stöðu var að leggja mig alla fram í að læra eins mikið og hægt er því ég vildi sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti orðið frábær í þessu.

Mér þykir magnað að líta til baka og sjá hvað ég hef áorkað miklu frá fyrsta deginum mínum í Borgó.

Helstu kostir við starfið

Mér finnst vinnan frábær, ég er alltaf að læra nýja hluti og aðferðir. Bílamálun breytist kannski ekkert mikið milli ára, ég þekki t.d. málara sem málar með nákvæmlega sömu aðferðum og þegar hann byrjaði fyrir 30+ árum. Það er svo skemmtilegt við þetta að enginn málar eins. Mér finnst alltaf skemmtilegt í vinnunni því á hverjum degi er ný áskorun fyrir mig til að læra og fikra mig áfram og þjálfa mig í að verða betri. Helsti kosturinn er, finnst mér að ég get málað og rétt bílinn minn sjálf. Ég veit nákvæmlega hvað þarf að gera og hvernig skal gera það.

Ástæða fyrir starfsvali

Ég ákvað bara að prófa eitthvað nýtt og ólíkt því sem ég var vön. Ég hafði farið í Tækniskólann að læra hárgreiðslu, sem mér þykir gaman að í dag en bara ekki nægilega mikið til þess að vinna við, þannig að í raun er engin ástæða fyrir þessu vali mínu. Ég er fyrst í minni fjölskyldu að gera eitthvað tengt bílum en pabbi minn hefur nú gaman að þeim og veit allskonar um þá en lærði ekkert tengt því.

En t.d. nokkrir sem útskrifuðust með mér úr skólanum, eru ekki að vinna við þetta í dag. En ég get sagt að eftir allt sem skólinn kynnti mig fyrir og líka núna vinnan mín, að ástæðan fyrir því að ég er enn að vinna í þessu og mun áfram gera í framtíðinni er að mér þykir gott að vita að ef eitthvað kemur fyrir bílinn minn get ég alltaf lagað það í hvelli og er með góða aðstöðu til.

Hvað hefur komið mest á óvart

Það kom mér mjög á óvart að finna fyrir því hvað ég, sem frekar smávaxin stelpa, er ótrúlega velkomin í þetta starf. Það eru svo miklu fleiri sem taka manni fagnandi heldur en ekki. Lengi vel hefur þetta verið frekar mikið stráka vinna. Einu stelpurnar sem ég veit um er ég og besta vinkona mín sem ég kynntist í þessu námi. Svo fannst mér líka skemmtilegt að sjá hvað fjölbreytileikinn og hugmyndaríki er mikið í þessum bransa. Ameríkanar eru t.d. með svakalegan markað fyrir allskonar föndurmálun á flottum sýningarbílum.

Framtíðarplön

Eins og staðan er í dag er ég bara að undirbúa mig fyrir sveinspróf í bílamálun. Eftir það ætla ég að ljúka vinnustaðanámi fyrir bifreiðarsmiðinn og fara svo í sveinspróf fyrir þá grein og að lokum ætla ég að taka meistaranám fyrir báðar greinar.

Draumurinn er að reka eigið verkstæði og lifa góða lífinu.

Matreiðslumaður
Andrés Björgvinsson (2024)
  • 2
  • 3
  • 4
  • 5
  • 6
  • 7
  • 8
  • 9