FYRIRMYND Í FAGINU

Daníel Guðjónsson (2022)

Vél- og rafvirki – og nemi í tölvunarfræði

Upplifun af námi

Fyrstu önnina mína í framhaldsskóla var ég í Vélskólanum en það var ekki alveg að virka þar sem flestir samnemendanna voru eldri en ég á þeim tíma. Flutti mig þá yfir í hefðbundið bóknám og var þar í þrjú ár en mikið að skipta á milli brauta og fann mig aldrei.

Svo þegar félagarnir fóru að útskrifast ákvað ég að láta aftur reyna á Vélskólann og þá var það allt annað líf. Gat til dæmis loks lært stærðfræði með því að tengja hana við rafmagnsfræði og vélfræðina. Um leið og þú setur hana í samhengi við eitthvað sem þú ert að vinna með þá verður allt svo miklu auðveldara. Eins líka að komast í verklega áfanga eins og suðu, að vinna með höndunum og fá að gera eitthvað.

Svo þegar ég á þrjár annir eftir, ákveðum við fjórir félagar að henda okkur í kvöldskóla í rafvirkjanum líka. Þjöppuðum því saman þannig að við útskrifuðumst í rauninni bæði með rafvirkjann og vélfræðinginn saman af því að viðbótin var ekki það mikil.

Helstu kostir við starfið

Námið var lykillinn að ákveðnum dyrum. Ég fæ vinnu á meðan ég er í skólanum og lærði gríðarlega mikið á því. Vissi lítið þegar ég byrjaði og hafði varla lyft verkfæri en um leið og ég fékk tilfinningu fyrir verklega umhverfinu, og bauðst síðan annað starf sem þjónustumaður, tvinnaðist það saman við annað sem ég hafði alltaf haft smá áhuga á; forritun og tölvur. Nokkuð sem ég fór þá að leika mér með og geri enn. En námið var alger lykill að því að komast í lærdómsríka vinnu og byggja síðan ofan á það.

Það skemmtilegasta við starf mitt í dag er að bilanagreina. Ég fæ símtal frá kúnna, úti í heimi eða hvar sem er, það er eitthvað að vélinni hans og maður bara sökkvir sér niður í vandamálið og leysir það!

Ástæða fyrir starfsvali

Kannski smá hugmyndaskortur hjá mér. Fólk í kringum mig hafði unnið sem vélstjórar og svona þannig að þetta var eitt af störfunum sem ég vissi af. Og mér var bent á að þetta væri kannski svolítið opnara nám en margt annað, þannig að ég gæti gert miklu meira. En ég ætlaði svo sem að verða flugmaður þegar ég var í grunnskóla.

Hvað hefur komið mest á óvart

Tölvurnar, stýringar og slíkt – hvað ég hafði ótrúlega mikinn áhuga á því og komst hratt inn í það, sem endaði í rauninni á því að ég er núna kominn í HR að læra tölvunarfræði!

Maður bara kemst í tæri við eitthvað í vinnunni sem vekur upp enn meiri áhuga og því tók ég að lokum ákvörðun um þetta. Mjög gott að hafa bæði þekkingu á vélunum og forritun og geta tvinnað það saman.

Framtíðarplön

Hugmyndin var alltaf að læra forritun til að fara svo bara að forrita en á móti kemur að þessi snerting sem maður hefur í þjónustunni á vélunum líka, finnst mér svo mikilvæg að ég held að í framtíðinni verði ég að geta haft fingurna í vélunum og rafmagninu líka.

Svo nýtist verklegi bakgrunnurinn ótrúlega vel í tölvunarfræðináminu. Það er ekki bara stærðfræði heldur ekki síður skilningur á því hvernig á að nota ákveðin verkfæri og formúlur til að leysa hlutina. Í vélfræðinni fær maður svo góðan grunn á svo ótrúlega víðtæku sviði að það er alltaf hægt að byggja ofan á hann.

Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)
Nemi í bílamálun
Alexander Arason (2021)
Rafeindavirki
Ásbjörn Eðvaldsson (2019)
Snyrtifræðingur
Magnea Óskarsdóttir (2020)