FYRIRMYND Í FAGINU

Björk Marie Villacorta (2020)

Grafískur miðlari

Upplifun af námi

Námið í Upplýsingatækniskólanum var mjög lærdómsríkt og krefjandi. Ég sé alls ekki eftir því að hafa valið þetta nám þó ég hafi í byrjun ekki alveg vitað hvað ég var að fara út í. Námið hefur kennt mér góð og öguð vinnubrögð sem munu alltaf nýtast vel og má segja að námið hafi á margan hátt ýtt mér út úr þægindarammanum þar sem ég fékk að takast á við allskonar skapandi og krefjandi hluti sem mér hefði aldrei dottið í hug að gera í venjulegu bóknámi. Maður lærir að vinna undir pressu ásamt því að vinna að verkefnum bæði sjálfstætt og í hóp, sem er ótrúlega mikilvægur þáttur í kennslunni því þannig er þetta á vinnumarkaðinum eftir að námi lýkur. Maður þarf að geta unnið sjálfstætt en einnig þarf maður að eiga góð samskipti við aðra.

Helstu kostir við starfið

Starfið er svo ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt. Þetta starf býður upp á endalausa möguleika á bæði listrænan og tæknilegan hátt þar sem maður fær útrás fyrir sköpunargleðina, en þarf líka að vera mjög nákvæmur í því sem maður gerir. Það getur verið skemmtilega krefjandi að láta þessa tvo þætti ganga upp svo úr verði gott verk. Þessi geiri er líka síbreytilegur og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Ástæða fyrir starfsvali

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni en jafnframt haft mikla þörf fyrir að skapa. Ég stundaði nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands en fann mig ekki þar. En þökk sé því námi áttaði ég mig betur á hvað mig langaði að gera og kynntist þá grafískri miðlun. Ég hafði lengi gælt við nám í grafískri hönnun en langaði að leggja meiri áherslu á tæknilegu hliðina og var grafísk miðlun það sem hentaði mér. Í dag starfa ég sem prentsmiður í forvinnsludeild Svansprents og líkar það ótrúlega vel. Þar fæ ég að takast á við ýmiskonar krefjandi og skemmtileg verkefni og enginn dagur er eins.

Hvað hefur komið mest á óvart

Ætli það hafi ekki komið mér mest á óvart hvað möguleikarnir geta verið endalausir í hönnun og framleiðslu og hvað í raun þetta starf er fjölbreytilegt dag frá degi. Einnig kom það mér á óvart hvað mér finnst ótrúlega spennandi og skemmtilegt að fylgjast með öllum þeim nýjungum sem koma fram í geiranum, sérstaklega ef um er að ræða nýjungar sem nýtast mér í starfi.

Framtíðarplön

Ég ætla að halda áfram að vaxa í starfi hjá Svansprent. Einnig stefni ég á að skrá mig í Meistaraskólann og sækja mér meistarabréf í prentsmíði. Svo er aldrei að vita eftir það hvort hugurinn leiti ennþá lengra, hvort sem það eru námskeið eða frekara nám.

Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)
Nemi í bílamálun
Alexander Arason (2021)
Rafeindavirki
Ásbjörn Eðvaldsson (2019)
Snyrtifræðingur
Magnea Óskarsdóttir (2020)