Á Íslandi eru fjórar löggiltar iðngreinar í boði en einnig nám sem tengist grunnþáttum starfa í matvæla- og veitingagreinum. Þar fyrir utan er í boði nám matartækna og matsveina, námsleiðir sem aukið geta möguleika á vinnumarkaði.
Nám í matvælagreinum fer hvort tveggja fram í skóla og á vinnustöðum en þar kynnast nemendur störfum á sviðinu, tileinka sér helstu verkþætti og þjálfast í sjálfstæðum vinnubrögðum og samstarfi við aðra. Alltaf má bæta við sig bóknámsgreinum og ljúka stúdentsprófi.
Starfsumhverfið er orðið mjög alþjóðlegt, hópar ferðafólks á hverju götuhorni og þeir, auk heimamanna, áhugasamir um að gera vel við sig í mat og drykk.
Á undanförnum árum hefur íslensk matreiðsla vakið talsverða athygli og fólk héðan náð eftirtektarverðum árangri í keppni erlendis. Í matvælagreinum bjóðast afar fjölbreytt störf hvort heldur um er að ræða skyndibita eða þjónustu og matargerð sem hefur að markmiði að veita upplifun sem seint gleymist!