Kynning fyrir foreldra
Myndband frá Danmörku og Noregi þar sem kynntir eru helstu kostir skipulagðrar fræðslu um nám og störf og mikilvægi þátttöku foreldra í þeim efnum. Einnig til í útgáfum sem ætlaðar eru skólum og hinu opinbera.
Texti myndbandsins
Mörgum 10. bekkingnum finnst það þrautin þyngri að taka ákvörðun um framhaldið en rannsóknir sýna að mörg verða óörugg og stressuð. Ein ástæða þess er hin mikla áhersla sem lögð er á valið. Unga fólkið upplifir gjarnan pressu um að fylgja vinum sínum, standa undir væntingum foreldra og samhliða fylgja þeim hugmyndum sem uppi eru í samfélaginu um að rétt sé valið og allt verður þetta til þess að mörg velja eitthvað sem þau í raun sjá ekki tilgang með. Mörg hætta eða í besta falli skipta um námsbraut ef þau hafa ekki tekið sjálfstæða ákvörðun þ.e. ákvörðun sem þau eru sátt við.
En það er hægt að gera ýmislegt til að hjálpa nemendum í þessum efnum. Áhersluna þarf að flytja frá valinu sjálfu og að því að læra að velja. Það köllum við náms- og starfsfræðslu sem snýst um náms- og vettvangsheimsóknir á vegum skólans til að uppgötva ýmislegt í tengslum við námsleiðir og atvinnulífið. Þetta snýst ekki bara um hvort eitthvað er skemmtilegt eða leiðinlegt heldur að þjálfast í aðferðum sem gera mann hæfari til að taka upplýstar ákvarðanir. Og líkt og með annað nám tekur það tíma að verða góð í slíku.
Í þessu eru margar leiðir. Í heimsókn til bónda má til dæmis uppgötva að fjármál eru áhugaverð (!), í kynningu á verklegum námsleiðum gæti maður gert sér grein fyrir áhuga á að starfa með fólki, vinna með höndunum eða við nýsköpun. Hjá lækni eða við framleiðslu gæti maður lært að efnafræði er mun meira en fræðileg þekking og tengist mikið því að geta unnið með öðrum og fundið hagnýtar leiðir.
Foreldrar hafa gríðarleg áhrif á börnin sín, raunar mun meiri en ætla mætti. Og geta lagt mikið til náms- og starfsfræðslunnar með því að hlusta og spyrja réttu spurninganna. En ef maður passar sig ekki er auðvelt að detta í þann pytt að spyrja; „Er það nokkuð fyrir þig?“ Krakkarnir læra ekki mikið af slíku því þar er verið að fara fram á svar sem þau hafa ekki endilega. Með því að hlusta er hægt að spyrja opinna og hvetjandi spurninga á borð við; „Hvað upplifðir þú í heimsókninni í dag“, „Var það eitthvað sem hafði áhrif á þig?“, „Langar þig að læra meira um þetta“ – spurningar sem hjálpa unglingunum að læra um sig sjálfa, umheiminn og hvað það er að vera hluti af honum. Spurningar sem eru styðjandi og hvetjandi til að kynna sér allt sem verður á vegi þeirra. Og þannig læra þau sjálf að spyrja innihaldsríkra spurninga og skilja betur það sem mætir þeim í lífinu.
Til að náms- og starfsfræðsla takist vel þurfa skólar og foreldrar að sammælast um að kenna nemandanum að velja, í stað þess að velja fyrir hann. Því þetta fyrsta val sem þau standa frammi fyrir er bara eitt af mörgum og valmöguleikarnir verða bara flóknari og erfiðari eftir því sem á líður.
Það er í lagi að vera í vafa, raunar forsenda þess að læra meira og meira.
Hva vil du velge? Lauslega þýtt: Arnar Þorsteinsson, 2015