FYRIRMYND Í FAGINU

Helga Aðalbjörg Bjarnadóttir (2021)

Blikksmiður

Upplifun af námi

Ég byrjaði á Grunndeild málmiðna í Verkmenntaskólanum á Akureyri haustið 2007. Hugmyndin var bara að koma mér af stað í átt að stúdentsprófi, en mig langaði að læra eitthvað skemmtilegt í leiðinni. Mér hafði alltaf gengið brösuglega í námi áður, en þarna small eitthvað og allt gekk miklu betur. Það myndaðist góður hópur og ég hafði mjög gaman af verklega náminu. Kennararnir voru mjög hjálpsamir og kröfuharðir en samt alltaf stutt í húmorinn. Það endaði með að ég kláraði nám í stálsmíði, seinna lærði ég svo tækniteiknun í Iðnskólanum í Hafnarfirði og bætti svo við mig blikksmíði í VMA árið 2019 – en hef ekki sett upp hvítan koll enn. Ég lærði margt og fékk góðan grunn í málmiðnum í skólanum, en blikksmíði er mjög fjölbreytt og lærist best á vinnustað. Ég lauk sveinsprófi árið 2019 en er samt alltaf að læra eitthvað nýtt.

Helstu kostir við starfið

Blikksmíði er mjög fjölbreytt starf, bæði vinnuaðstæðurnar og verkefnin. Stundum er maður í þægilegri inni-vinnu en aðra daga getur maður verið kominn upp á húsþak eða á kafi inni í loftræstikerfi. Verkefnin eru mjög mismunandi og allt frá því að smíða einfalda hluti eftir teikningu frá viðskiptavini og yfir í að mæla og teikna sjálf og finna lausnir við ýmsum vandamálum.

Ástæða fyrir starfsvali

Ég hef alltaf haft gaman af því að vinna með höndunum og skapa eitthvað eða lagfæra hluti. Mér finnst líka gott að geta unnið bæði úti og inni. Fjölbreytileikinn hentar mér vel því ég fæ fljótt leið á því að gera sama hlutinn marga daga í röð. Verkefnin eru mjög mis krefjandi, sumt er mjög einfalt en annað er flóknara og það er alltaf jafn gaman þegar maður finnur lausn á vandamálunum.

Hvað hefur komið mest á óvart

Hvað fjölbreytileikinn á verkefnum er gríðarlegur. Í skólanum smíðaði ég verkfærakassa úr blikki og svo lærði ég ýmislegt um loftræstingar en það er bara pínulítið brot af því sem blikksmiðir þurfa að kunna og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Framtíðarplön

Ég er í raun ekki með nein framtíðarplön. Ég sé fyrir mér að halda áfram að vera blikksmiður meðan ég hef gaman af því.

Lauk námi og sveinsprófi í skrúðgarðyrkju 2024
Hrafnkell Erik Guðjónsson
Matreiðslumaður
Andrés Björgvinsson (2024)
Lauk sveinsprófi í prentsmíði í nóvember 2023
Hulda Sól (2024)
Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir (2024)
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)