Upplifun mín af náminu var mjög góð, þetta var skemmtilegt ferli og ég lærði ótrúlega margt sem hefur nýst mér vel í starfi. Mér finnst það líka mikill kostur að starfsnámið er bæði langt og sérstaklega skemmtilegt.
Það er líflegt og það hentar mér vel að vera á ferðinni, ekki sitja alltaf á sama stað. Starfið býður upp á ákveðinn sveigjanleika og frelsi. Til dæmis hentar vaktavinna mér mjög vel, að geta unnið í nokkra daga og fá svo frídaga á milli. Það er líka fjölbreytt og hægt að sækja um vinnu hvar sem er, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, til dæmis í veiðihúsum eins og ég er að vinna í núna.
Í veiðihúsi er maður einn og þarf að geta unnið meira sjálfstætt og mjög skipulega. Þar er fyrir fram vitað hve margir eru í mat og ákveðið frelsi varðandi matseðil og útfærslu. Í vinnu á hefðbundnari veitingastað eru fleiri að vinna með þér en þar þarf að bíða eftir pöntunum og kannski meiri óvissa og spenna.
Svo er alltaf möguleiki að sækja um störf í útlöndum. Mér finnst líka áberandi hvað það er skemmtilegt fólk í faginu, sem er mikill kostur. Það er mikið af keppnum tengdum matreiðslu á Íslandi og þær gefa manni möguleika á að komast í keppnir í útlöndum eða í kokkalandsliðið. Ég er til dæmis að fara að keppa í október í „Arctic Young Chef“ sem fulltrúi Íslands.
Ég hef alltaf haft áhuga fyrir matreiðslu. Ég vissi að ég vildi læra einhverja iðngrein en var í fyrstunni ekki viss hvaða grein, hvort ég ætti að velja matreiðsluna eða eitthvað annað. Svo ákvað ég að prófa kokkinn því ég hef alltaf haft ástríðu fyrir því og fann mig strax mjög vel. Ég hef elskað mat og að vera í eldhúsi frá unga aldri svo ég er mjög ánægður með valið.
Það kom mér á óvart hvað það er mikill undirbúningur áður en hægt er að fara að elda. Það er ekki bara að fara beint að elda heldur er mikil vinna í kringum þetta, mér finnst undirbúningurinn líka mjög skemmtilegur. Ég hélt að ég væri að elda allan daginn en undirbúningurinn kom á óvart og líka hve skemmtilegur hann er. Það kom líka á óvart hvað það er fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur við matreiðslu og á mismunandi aldri en allur þessi hópur fólks hefur áhuga á þessu sama fagi. Það er skemmtileg upplifun og gaman að finna þessa tengingu.
Ég ætla að vinna eitthvað áfram á Íslandi en svo stefni ég á að fara út og fá mér vinnu á flottum veitingastöðum í útlöndum. Flakka á milli staða til að fá fjölbreytta reynslu og læra sem mest því maður getur aldrei stoppað að læra.