Bifvélavirki
Ég útskrifaðist vorið 2017 úr bifvélavirkjun og kláraði í framhaldi af því stúdentsprófið. Vinnustaðarnámi lauk ég svo í desember 2018 og sveinsprófi í febrúar 2019. Í skólanum er grunnurinn að mestu bóklegur en síðan tengdur við verkleg verkefni. Í vinnustaðanáminu lærir maður að byggja ofan á þann grunn.
Ég vissi nánast ekkert um bíla þegar að ég byrjaði í skólanum. Fannst það stundum pínu vandræðalegt, fólk kemur þarna inn með misgóðan undirbúning en ég var harðákveðin í að læra þetta allt saman. Það er ótrúlega skemmtilegt að líta til baka og sjá allt það sem ég er búin að læra á þessum stutta tíma.
Mjög oft að læra eitthvað nýtt og margt sem þarf að finna út úr, því það er svo ótrúlega hröð þróun í greininni. Allt frá einföldum bremsuviðgerðum upp í flókna greiningarvinnu á tölvubúnaði. Svo er líka auðvitað mjög þægilegt að geta gert við bílinn sinn sjálf.
Hægt er að vinna hjá stærri fyrirtækjum eins og umboðum þar sem maður einbeitir sér að einni eða tveimur bíltegundum og fær þá dýpri þekkingu á þeim eða hjá minni verkstæðum þar sem um er að ræða fjölbreyttari bíltegundir en getur ekki farið eins djúpt í þær.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllu því sem tengist bílum og langaði að fræðast meira um þá. Þegar ég var orðin mjög leið á hefðbundna náminu upp í stúdentsprófið langaði mig að læra eitthvað skemmtilegt og verklegt og ákvað því að skipta yfir í bifvélavirkjun.
Í fyrstu langaði mig að fara í bifreiðasmíðina en eftir að hafa klárað grunnnámið sem allir þurfa að taka í bíladeildinni ákvað ég að velja bifvélavirkjun. Námið er mjög praktískt og gefur ákveðið öryggi þegar maður er til dæmis að keyra bílinn sinn. Ég er farin að þekkja mörg hljóð og bilanir sem geta myndast og get í framhaldi af því brugðist við.
Það er svo margt í boði, þetta er nám sem opnar margar dyr. Það er til dæmis margt að velja um innan greinarinnar. Hægt er að vera meira í því sem er mekanískt eða fengið meiri þjálfun og unnið frekar í rafmagni í bílum, maður getur svo orðið tæknistjóri eða verkstjóri og farið í alls konar framhaldsnám.
Í dag er ég í verkfræði og þar nýtist þekkingin sem ég hef fengið og safnað að mér hingað til og það er líka gaman að geta miðlað henni áfram.
Í framtíðinni væri ótrúlega spennandi að vinna að einhverju tengdu bílageiranum á Íslandi og ég hef séð hingað til að það er mikið af fjölbreyttum störfum í boði þar sem þekkingin úr bifvélavirkjanum nýtist mjög vel.