FYRIRMYND Í FAGINU

Hulda Sól (2024)

Lauk sveinsprófi í prentsmíði í nóvember 2023

Upplifun af námi

Ég var ekki alveg búin að ákveða hvað ég vildi læra nema ég vissi að það yrði að tengjast skapandi greinum. Svo þegar ég hóf nám í grafískri miðlun kom það skemmtilega á óvart. Það var bæði vel skipulagt og vel uppbyggt þannig að ég upplifði aldrei neina óvissu, vissi alltaf hvað ég átti að gera. Námið er útpælt og kennararnir með allt á hreinu. Tækniskólinn er alveg til fyrirmyndar. Þar er góð aðstaða og öll tæki og tól sem maður þarfnast. Ég fékk rými til að gera verkefnin eftir mínu höfði en innan þess ramma sem til var ætlast. Allt sem ég lærði í náminu hef ég nýtt mér í daglegu starfi í dag.

Helstu kostir við starfið

Helsti kosturinn er að ég fæ rými til að skapa og gera það sem mér dettur í hug, láta hugmyndir sem ég fæ verða að veruleika. Viðskiptavinirnir eru alltaf til í að heyra nýjar hugmyndir og það gefur mikla möguleika til að gera eitthvað spennandi. Starfið mitt felst mikið í því að búa til auglýsingar sem birtast á hinum ýmsu miðlum og búa til eitthvað með höndunum. Engir tveir dagar eru eins og ég veit ekki að morgni hvernig dagurinn verður en ég gæti þess vegna endað á því að hjálpa til við upptökur. Það er rosalega skemmtilegt að vinna á auglýsingastofu og fá að vera í kringum skapandi fólk.

Ástæða fyrir starfsvali

Ég hef alltaf verið góð að vinna með tölvur, að teikna og búa eitthvað til. Mig langaði að vera í starfi sem krefst sköpunar en vissi ekki hvernig ég ætti að nýta sköpunarkraftinn. Áður en ég fór í grafíska miðlun lauk ég námi á kvikmyndabraut en fann að mig langaði í meiri hönnunarverkefni og handavinnu. Ég byrjaði að hanna plaköt fyrir viðburði á vegum nemendafélags sem unglingur í Borgó. Það var gaman að sjá verkin mín hangandi um alla veggi skólans. Í dag sé ég verkefni eftir mig á stórum skiltum um alla borg. Það er alveg óþolandi að vera með mér í bíl: „sjáðu, þetta gerði ég … oog þetta!“

Möguleikarnir eru endalausir í þessu starfi og þó að ég hafi ekki endað í kvikmyndagerð var það samt góður grunnur sem síðan leiddi mig áfram á þá braut sem ég er á í dag. Pipar\TBWA var draumavinnustaðurinn minn sem svo varð að veruleika. Ég er svo þakklát fyrir að fá að taka þátt í þessari flottu vinnu sem hér fer fram og setja mitt mark á alls kyns verkefni.

Hvað hefur komið mest á óvart

Fjölbreytni verkefna hefur komið mér á óvart og hve marga skemmtilega hluti ég hef fengið að gera. Allt sem ég lærði í náminu hefur nýst mér vel, en ég læri líka alltaf eitthvað nýtt í daglegum störfum.

Framtíðarplön

Ég sé fyrir mér að halda áfram að vaxa í starfi hér hjá Pipar\TBWA. Kannski taka námskeið til að bæta við mig meiri þekkingu á sviði markaðssetningar og hönnunar. Svo er aldrei að vita nema ég fari í Listaháskólann og næli mér í BA-gráðu í grafískri hönnun.

Mér þykir mikilvægt að leyfa sér að vera forvitin og prófa nýja hluti. Maður veit aldrei nema maður prófi.

Matreiðslumaður
Andrés Björgvinsson (2024)
Lauk sveinsprófi í prentsmíði í nóvember 2023
Hulda Sól (2024)
Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir (2024)
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)
Nemi í bílamálun
Alexander Arason (2021)