Nemi í vélstjórn
Ég hóf námið í grunndeild málmiðnaðar alveg græn en taldi það vera góðan undirbúning fyrir verkfræði. Þekkti skrúfjárn og helstu heimilisverkfæri í sjón en ekki mikið meira en það. Námið var því frekar strembið til að byrja með, margt nýtt sem ég vissi ekkert um en ég lagði mig alla fram og smám saman lagaðist þetta og ég náði taktinum. Síðan myndaðist góð stemming hjá vélstjórnarnemum og gaman að læra það sem maður hefur áhuga á með skemmtilegu fólki. Námið kom mér líka skemmtilega á óvart og áhugi minn á vélaverkfræði hefur aukist.
Ég vissi ekkert hvernig verkfræði mig langaði til að læra þegar ég hóf vélstjórnarnámið en í dag finnst mér vélaverkfræðin heillandi. Helsti kosturinn sem ég sé við að vera vélaverkfræðingur er að það eru fjölbreytt störf sem hægt er að vinna en best er þó að vinna við það sem maður hefur áhuga á. Maður getur unnið við hönnun, smíði, í virkjunum, við kennslu og allskonar með þessa menntun í pokahorninu.
Einhvern tímann þegar ég var lítil ákvað ég þetta. Hef ekki hugmynd um hvers vegna, kannski vegna þess að stærðfræði og raungreinafög eru mín sterka hlið og ég hef gaman að þeim. En þá hafði ég ekki hugmynd um hvað verkfræðingar gera, veit aðeins meira um það núna.
Það sem kom mest á óvart er að námið er skemmtilegra en ég hélt og svo hef ég gert hluti sem ég hafði aldrei gert áður eins og að sjóða og lóða og smíða allskonar. Svo kom mér á óvart að þó það séu nánast bara strákar í náminu þá er það ekki síður fyrir stelpur og erum við nokkrar stelpur þarna og höfum orðið góðar vinkonur.
Framtíðarplönin eru að fara suður í vélaverkfræði eftir stúdentspróf og C-réttindin og eftir það eitthvað til útlanda í framhaldsnám. Svo er aldrei að vita hvað gerist. Það er hægt að vera svo margt og verða svo margt. Ég er bara 17 ára og þarf ekkert að plana allt lífið. Þetta er ágætt svona til að byrja með.