FYRIRMYND Í FAGINU

Hrafnkell Erik Guðjónsson

Lauk námi og sveinsprófi í skrúðgarðyrkju 2024

Upplifun af námi

Upplifun af náminu var mjög góð, mér fannst námið mjög skemmtilegt. Fannst gott að námið er ekki bara bóklegt heldur líka verklegt, og lærdómsríkt að fá tækifæri til nota það sem maður lærði í bóklega hlutanum til að sjá það verða að veruleika í verklega þættinum. Maður sér þá niðurstöðuna og afraksturinn. Mér finnst líka svo áhugavert hvað það fylgir mikil hönnun og sköpun námi og starfi við skrúðgarðyrkju.

Helstu kostir við starfið

Starfið er mjög fjölbreytt. Í skrúðgarðyrkju á Íslandi vinnur maður jöfnum höndum við hellulagnir og gróður. Maður kemur að nýbyggðu húsi og þá er síðasti áfanginn að fullgera lóðina í kring og því fylgir mikil sköpunarvinna. Þarfir viðskiptavinanna eru svo fjölbreyttar, pallar, gróður og hvaðeina og við vinnum lóðina með þarfir þeirra í huga. Svo er mikil fjölbreytni fólgin í því að fara á nýjan stað og vinna fyrir nýja viðskiptavini en vera ekki alltaf í því sama.

Ástæða fyrir starfsvali

Ég hafði unnið ýmis störf sem heilluðu mig ekki en svo fékk ég vinnu eitt sumar við garðyrkju og heillaðist af starfinu. Ég hélt áfram að vinna við þetta í nokkur ár, fór svo í raunfærnimat og í námið í kjölfarið. Kannski hafði það líka áhrif að ég var mikið á sveitabæ sem krakki og fannst ýmislegt áhugavert í því vinnuumhverfi.

Hvað hefur komið mest á óvart

Það kom mér á óvart hvað starfið er fjölbreytt og hvað það er skapandi. Oft gefa viðskiptavinir okkur mikið frelsi til að hanna og útbúa garðana sína og það er gaman að sjá um framkvæmdina þegar maður á svona mikinn þátt í hönnuninni.

Framtíðarplön

Ég held áfram minni vinnu við skrúðgarðyrkju og til að fá enn fjölbreyttari reynslu ætla ég að fara til Þýskalands og vinna þar í vetur. Svo kem ég aftur heim og held áfram að vinna á mínum vinnustað hjá Garðmönnum. Svo er á planinu að ljúka iðnmeistaranámi í framtíðinni.

Lauk námi og sveinsprófi í skrúðgarðyrkju 2024
Hrafnkell Erik Guðjónsson
Matreiðslumaður
Andrés Björgvinsson (2024)
Lauk sveinsprófi í prentsmíði í nóvember 2023
Hulda Sól (2024)
Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir (2024)
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)