Klæðskeri
Ég fór í klæðskeranám við Tækniskólann til þess að læra alla þá tækni sem mikilvægt er að kunna til þess að búa til vandaða flík. Það er farið vel í gegnum grunn þætti í sniðagerð ásamt saumatækni og með tíð og tíma lærum við að sauma klassíska herrajakka eftir málum af viðskiptavinum. Mikil áhersla er lögð á nákvæmni og fagleg vinnubrögð.
Það eru endalausir möguleikar í boði og stærsti kosturinn að mínu mati er hversu fjölbreytt starfið getur orðið. Allt frá því að vinna á bakvið tjöldin í leikhúsi, búa til föt fyrir kvikmyndir eða tónlistarmyndbönd, vinna að frumgerðum með fatahönnuðum, starfa við fjöldaframleiðslu, sauma sérsaumuð herraföt eða vinna í hátískunni. Spurningin er bara hvert viltu stefna?
Ég hef alltaf verið mjög hugmyndarík og skapandi í hugsun en átt erfitt með að búa til nákvæma eftirlíkingu af skissunum mínum. Áður en ég byrjaði í náminu þá kunni ég ekkert í sniðagerð og vissi lítið um hegðun efna og meðhöndlun þeirra. Það skiptir mig miklu máli að koma hugmyndum mínum í efnisheiminn og til þess þarf traustan grunn því ekki byggir maður hús á sandi. Þegar maður kann reglurnar þá er svo margt skemmtilegt hægt að gera, til dæmis að brjóta þær.
Í rauninni hefur ekkert komið mér verulega á óvart þar sem námið uppfyllti allar þær kröfur sem ég hafði til þess. Jú, það kom mér á óvart hversu margar aðferðir eru til þess að gera ákveðna hluti og hefði ég kosið að hafa meiri tíma til þess að læra þær allar!
Ég ætla að taka sveinsprófið í kjólasaum næsta vor en í millitíðinni ætla ég að bæta við mig nokkrum teikniáföngum af hönnunarbraut Tækniskólans. Að loknu sveinsprófi í kjólasaum langar mig að afla mér reynslu hjá íslenskum og erlendum fatahönnuðum. Ég stefni á meistarapróf og svo að stofna mitt eigið fyrirtæki.