Ég fór í hársnyrtinám aðallega til að prófa því ég var ekki viss hvað mig langaði að gera. Það kom mér á óvart hvað það var auðvelt að byrja í náminu án þess að hafa nokkurn grunn. Ég kunni ekkert varðandi hár og var eiginlega búin að ákveða að það væri nauðsyn að hafa einhvern undirbúning þegar ég sótti um og hélt þess vegna að ég yrði eftir á. Það var alls ekki raunin, í náminu er farið yfir allan grunn og svo byggt ýtarlega ofan á hann.
Starfið getur verið jafn fjölbreytt og þú vilt að það sé. Hægt er að vinna á stofu, annað hvort sem starfsmaður eða í stólaleigu þar sem þú ræður þér sjálf, í leikhúsi eða við kvikmyndir og aðrar tökur. Það sem mér finnst best er að ég hef náð að blanda þessu öllu saman og raða upp í mína eigin vinnuviku. 50% á stofu á móti kvöld- og helgarvinnu í leikhúsinu og svo mismunandi tökur inn á milli. Sem hentar mér mun betur en hefðbundin 9-5 vinna.
Ég valdi hársnyrtinám þar sem ég var nýbúin í förðunarnámi og hugsaði að ég gæti lært eitthvað sem ég gæti nýtt í það, hvort sem ég myndi kunna við mig í náminu eða ekki. Svo kom það mér eiginlega á óvart hvað þetta var skemmtilegt, fjölbreytt og ótrúlega skapandi, og ég hef ekki viljað gera annað síðan.
Það hefur komið mér mest á óvart hvað fagið nær ótrúlega langt. Þetta er ekki bara að læra í fjögur ár og fara svo á stofu og vinna þar næstu 30 árin. Það er mjög stórt samfélag innan hársnyrtifagsins bæði hér heima og úti. Ótrúlega mikið af námskeiðum, sýningum og keppnum sem hægt er að taka þátt í. Svo er starfið sjálft alveg jafn fjölbreytt og þú vilt að það sé.
Ég stefni á að taka meistarann sem fyrst, halda áfram að vera dugleg að fara á allskonar námskeið og prufa mig áfram með nýja og spennandi hluti.