Snyrtifræðingur hjá Aqua spa/Laugar spa á Akureyri
Snyrtifræðingur hjá Aqua spa/Laugar spa á Akureyri
Þegar ég byrjaði í snyrtifræði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hélt ég að ég væri að fara að læra að lita og plokka og annað verklegt sem ég hélt að væri ekkert mál. Þetta nám er í raun og veru mikið meira krefjandi en ég bjóst við, en á góðan hátt. Maður upplifir sig pínu eins og húðsjúkdómalækni og lærir gríðarlega mikið um stærsta líffæri líkamans, húðina. Mér fannst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt nám.
Í mínu tilfelli er það rólegt andrúmsloft. Ef það er brjálað að gera þá er maður samt ekki í neinu stressi því viðskiptavinurinn er vanalega rólegur, umhverfið er hlýtt og notalegt og tónlistin í hverju herbergi er punkturinn yfir i-ið. Ég vinn í Aqua spa/Laugar spa, sem þýðir að við erum staðsett inni í WorldClass. Það gefur mér einnig tækifæri til að efla líkamlega heilsu jafnt sem andlega.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllu sem tengist snyrtifræði. Bara það að hjálpa annarri manneskju að velja réttu vöruna fyrir húðtegundina sína, lætur mér líða vel. Þetta fag býður upp á mikla fjölbreytni, alltaf hægt að læra eitthvað nýtt. Einnig get ég unnið sjálfstætt, sem hefur alltaf svolítið heillað mig.
Það sem kom mér mest á óvart var hvað námið var ítarlegt og hvað maður lærði mikið nýtt. Ef ég hefði vitað fyrirfram hvað þetta var krefjandi hefði ég líklegast ekki lagt í það. En eftir að vera búin ráðlegg ég snyrtifræðina 100% fyrir þá sem hafa áhuga á snyrtifræði og öllu sem í því felst. Námið er sett þannig upp að þú tekur eitt skref í einu og kennararnir eru mjög duglegir að hjálpa nemendum.
Einnig bíður skólinn uppá allskonar tengt náminu. Ég fékk til dæmis styrk til að fara til Portúgal í einn mánuð og prufa að vinna á snyrtistofum þar. Það var alveg ótrúleg upplifun og hjálpaði mér að víkka sjóndeildarhringinn í því hvað fagið er fjölbreytilegt.
Framtíðarplönin mín eru að fara í meistarann í snyrtifræði, mögulega að prufa að vinna sjálfstætt og opna mína eigin stofu. Mig langar einnig að bæta við mig námskeiðum, svo sem augnhára lengingum, „micro-blades“ og fleira.