Mín framtíð

Íslandsmót iðn- og verkgreina og Mín framtíð

MÍN FRAMTÍРer yfirskrift Íslandsmóts iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningar fyrir grunnskólanemendur sem fram fer samhliða.
Mótið hefur verið haldið frá árinu 2007 fyrir tilstilli Verkiðnar sem eru íslensk systursamtök evrópsku Skills samtakanna sem aftur heyra undir WorldSkills International.

Mín framtíð er haldin með styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneyti. Þá kemur að framkvæmd mótsins mikill fjöldi sjálfboðaliða úr fagfélögunum og iðnaði en einnig frá íslenskum björgunarsveitum. Mín framtíð hefur reynst lyftistöng fyrir iðn- og verknám á Íslandi og hvetjandi fyrir skólasamfélagið. Um 8000 grunnskólanemar koma á mótið til að fylgjast með og fá fræðslu um iðn- og verknám.

Keppt hefur verið í 20 – 27 greinum hverju sinni og takast keppendur á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Keppendur segjast fá aukinn skilning á faginu og náminu, aukna tæknilega hæfni og meiri metnað gagnvart faginu.

Á Minni framtíð sýna fleiri iðn- og verkgreinar á mótssvæðinu og leyfa gestum jafnvel að prófa handtökin. Á fjölskyldudegi, lokadegi mótsins er lögð áhersla á að kynna mikilvægi iðn- og verknáms fyrir samfélagið allt.

Mín framtíð 2023

Mín framtíð 2019

Mín framtíð 2017

Íslandsmót iðn- og verkgreina 2014

Íslandsmót iðn- og verkgreina 2012

Íslandsmót iðn- og verkgreina 2010

Worldskills

Alþjóðlega Worldskills hreyfingin var stofnuð eftir seinni heimsstyrjöldina og var ætlað að skapa ný tækifæri fyrir ungt fólk í löndum þar sem vinnumarkaður var óstöðugur og einkenndist af skorti á færu vinnuafli.

Í dag eru 85 lönd og landsvæði hluti af hreyfingunni og flest þeirra halda einnig landskeppnir og senda ungt fólk til þátttöku í stærri keppnir í sínum heimshluta á borð við EuroSkills. Ísland hefur átt hlut að WorldSkills frá 2007 fyrir tilstilli Verkiðnar sem heldur Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynninguna Mín framtíð annað hvert ár.

Ísland tekur eins og önnur þátttökulönd þátt í alþjóðasamstarfi og sendir keppendur bæði á EuroSkills og WorldSkills. Keppendur í WorldSkills mega ekki vera eldri en 22 ára á keppnisárinu. Á þessu eru fáeinar undantekningar, til dæmis í flugvirkjun og vélfræði (mechatronics) en þar er aldurstakmarkið bundið við 25 ár.

WorldSkills hefur verið haldið á tveggja ára fresti og oft eru samhliða keppninni haldnar stórar ráðstefnur og málþing sem tengjast iðnnámi og þróun iðn- og verkgreina. World Skills keppnir voru haldnar með reglulegu millibili allt til ársins 2020 þegar Covid-19 heimsfaraldurinn riðlaði skipulaginu.

Næsta WorldSkills mót verður haldið með hefðbundnu sniði árið 2024 í Lyon, Frakklandi. Sjá meira um WorldSkills hér

Um mótin 2005 - 2008 og undanfara - í vinnslu ...

Euroskills

EuroSkills keppnin er haldin annað hvert ár á móti WorldSkills keppninni.

Keppendur koma víða að frá Evrópulöndunum, eru 25 ára og yngri og geta sveinar jafnt sem nemar tekið þátt.

Keppnin í Evrópu er mikilvæg fyrir framþróun í iðnaði og iðn -og verknámi. Hvert þátttökuland keppist um að þróa færni sína í hverri grein. Hún stuðlar einnig að starfsþróun þeirra iðn- og verkgreinakennara sem taka þátt í þjálfun ungmenna sem keppa. 

Keppnin er haldin af WorldSkills Europe sem er hluti af alþjóðlegu WorldSkills hreyfingunni og hefur það að markmiði að kynna iðn- og verknám og möguleika þess. Samtökin vinna markvisst með stjórnvöldum og iðnaði til að undirbúa samfélagið undir störf framtíðarinnar.

Ísland hefur tekið þátt í keppninni frá árinu 2007 fyrir tilstilli Verkiðnar sem eru samtök stofnuð um keppnir í iðn- og verkgreinum á Íslandi. Meginstarfsemi Verkiðnar sem systursamtök okkar kalla SkillsIceland er að:

  •  auka sýnileika iðn- og starfsmenntunar
  • bæta ímynd iðn- og verkgreina
  • halda Íslandsmót iðn- og verkgreina annað hvert ár
  • vekja athygli á tækifærum sem felast í námi og störfum í þessum greinum
  • vera samstarfsaðili við EuroSkills og WorldSkills

Fréttir

Forsidan

Nýtt námsefni

Siggi_nem

Heimsókn í Vatnagarða

Starfamessa_AK24

Grunnskóla á Akureyri

Forritunarkeppni

Forritunarkeppni grunnskólanna

Hedinn_frett2

„Frá hugmynd að fullunnu verki“

Hofn_23

Vel heppnað Starfastefnumót