FYRIRMYND Í FAGINU

Alexander Arason (2021)

Nemi í bílamálun

Upplifun af námi

Mín upplifun í bílamálun var miklu betri en ég nokkurn tímann bjóst við. Það er bæði krefjandi og skemmtilegt! Mikið verklegt bæði í grunninum og bílamálun. Ég lærði mjög mikið þrátt fyrir að hafa verið mikið í kringum bíla og prufað að vinna við bílamálun smá áður en ég ákvað að fara í þetta nám. Svo eru kennararnir frábærir og skemmtilegir!

Ég var aldrei mikið fyrir bóklega áfanga en þeir sem eru kenndir í grunninum og bílamálun eru mjög fróðlegir og hafa kennt mér fullt sem ég hef getað nýtt í starfi og námi. Ekki bara það heldur fjölbreytileikinn og lotukerfið í skólanum hentar mjög vel, að geta bara verið í einum áfanga og einbeitt mér aðeins að því í stað þess að vera í mörgum áföngum og prófum á sama tíma. Áður en ég fór í bílamálun hafði ég prufað aðrar brautir sem hentuðu mér ekki þar sem ég hafði ekki nógu mikinn áhuga fyrir þeim. Ég fór frá því að rétt svo ná áföngunum yfir í að fljúga í gegnum bílamálun með frábærar einkunnir og mætingu þar sem áhuginn var það mikill að það var aldrei neitt vesen eða vandamál að læra heima eða vakna til að fara í skólann.

Helstu kostir við starfið

Helstu kostirnir finnst mér að engin tvö verkefni eru eins, þú ert alltaf að læra og takast á við eitthvað nýtt, líka að sjá muninn fyrir og eftir og vera stoltur af því sem þú gerðir. Klárlega besta tilfinning sem ég veit um! Ímyndaðu þér að taka drulluskítugan og/eða ljótan bíl og gera hann eins og glænýjan og sjá muninn. Svo lærir maður í leiðinni alltaf eitthvað nýtt, þó aðferðin sjálf sé mjög svipuð er alltaf hægt að breyta og bæta sig á þessu starfssviði og endalaust hægt að læra. Það er engin ein aðferð rétt heldur er þetta endalaus lærdómur og áskorun. Það eru líka miklir valmöguleikar í boði í náminu, það er ekki bara hægt að sprauta bíla sem kom mér mest á óvart, einnig eru námskeið og nám erlendis og mikil fjölbreytni á bílum, efnum og aðferðum.

Ástæða fyrir starfsvali

Ég var mjög óviss fyrst en ég hef alltaf elskað bíla og verið mikið í kringum bíla og bílaiðnaðinn, Ég ætlaði alltaf fyrst að verða kokkur eða klára stúdentinn og fara í háskóla en var mjög óviss hvað ég vildi læra, þannig að ég prufaði mig áfram og fann mig ekki nógu vel fyrst en svo fann ég mikinn áhuga á að þrífa, bóna og halda bílunum mínum og öðrum bílum hreinum og flottum. Ég hef farið árlega frá því ég fékk bílpróf að sýna bílana mína á bílasýningum og prufaði að vinna við bílamálun og „detailingu“. Svo kom það bara allt í einu að þetta er eitthvað sem mig langar til að læra betur og gera betur þannig ég ákvað að fara og klára bílamálun og læra enn betur hvernig efnin virka, glæran, málningin, viðhaldið og líka að geta lagað og gert þetta sjálfur!

Hvað hefur komið mest á óvart

Það sem kom mér mest á óvart var að bílamálarar eru ekki bara að mála bíla. Ég lærði þegar ég fór í námið að bílamálarar eru líka að sprauta vinnuvélar, tæki, iðnaðarvélar, flugvélar, lestar og stærri bíla. Þeir eru líka í lakkleiðréttingu og lagfæringum ásamt því að selja málningu, þrifvörur og blanda málningu fyrir bíla.

Ég var alltaf hræddur við að fara að vinna við áhugamálið, en það kom mér mest á óvart að maður á ekki að vera hræddur við það, frekar auka þekkinguna og kunnáttu á akkúrat því sem þú hefur mikinn áhuga fyrir. Eins og í mínu tilfelli elska ég að halda bílum flottum og prufa mig áfram ásamt því að geta gert þetta sjálfur frá A til Ö.

Framtíðarplön

Planið er að klára meistarann í bílamálun og fara á námskeið bæði á Íslandi og erlendis til að afla mér eins mikillar þekkingar og ég get! Svo væri gaman annaðhvort að stofna mitt eigið fyrirtæki eða ferðast erlendis og vinna fyrir þessa stærstu framleiðendur eins og BASF Coatings eða Axalta sem dæmi og jafnvel eftir nokkur ár, að læra og prufa mig meira áfram til að geta kennt öðrum. Hvort sem það er að gerast kennari, setja upp námskeið eða stofna eigið fyrirtæki og taka að mér nema. Að mínu mati er þetta mjög áhugavert nám/starf og það væri gaman geta hjálpað öðrum með því að kenna og efla með þeim betri þekkingu um fagið!

Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)
Nemi í bílamálun
Alexander Arason (2021)
Rafeindavirki
Ásbjörn Eðvaldsson (2019)
Snyrtifræðingur
Magnea Óskarsdóttir (2020)