FYRIRMYND Í FAGINU

Magnea Óskarsdóttir (2020)

Snyrtifræðingur

Upplifun af námi

Snyrtifræðin í Fjölbraut Breiðholti kom mér mjög á óvart, í byrjun gerði ég mér ekki grein fyrir því hve mikið og ýtarlegt þetta nám yrði. Námið er mjög faglegt og hnitmiðað ásamt því að vera ótrúlega áhugavert. Á móti mér tóku yndislegir kennarar, persónulegir, hlýir og umfram allt fagmenn fram í fingurgóma. Við vorum sjö stelpur í bekk og á milli okkar mynduðust sterk vinatengsl sem ég er mjög þakklát fyrir.

Einn helsti styrkur þessa náms er jafnvægið á milli þess að læra fagið og að starfa við það. Starfsreynslan ásamt hnitmiðuðu og kröfuhörðu námi gerir það að verkum að mér líður vel að takast á við hverja þá áskorun sem bíður mín á vinnumarkaðnum.

Helstu kostir við starfið

Að fá að gefa smá af sér á hverjum degi. Ég get miðlað minni þekkingu áfram til viðskiptavina sem hafa allskonar spurningar og hugleiðingar varðandi húðumhirðu, öldrun húðar, sólarvarnir svo að dæmi séu nefnd. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að sjá hvernig mín þekking skilar árangri. Einnig er mikill kostur við starfið hvernig mínir helstu styrkleikar nýtast til fulls á hverjum degi. Við starfið þarf nákvæmni, háttvísi, samskiptahæfni, jákvætt viðhorf, lausnamiðaða hugsun og að sjálfsögðu þekkingu á faginu.

Ástæða fyrir starfsvali

Eftir að hafa útskrifast með stúdentspróf úr MH skoðaði ég hvaða námsmöguleikar væru í boði fyrir mig og þegar ég var að leita að námi notaði ég mikið síðuna naestaskref.is en þar er að finna öll þau störf sem eru í boði á Íslandi. Ég skoðaði störfin og mátaði mig inn í hvert og eitt þeirra. Rétt eins og ég væri að kaupa mér föt. Snyrtifræðin varð fyrir valinu vegna þess að samsömunin var svo sterk. Það má eiginlega segja að ég hafi alveg látið áhugasviðið ráða för og ég sé klárlega ekki eftir því.

Hvað hefur komið mest á óvart

Tækifærin í atvinnulífinu sem koma út frá náminu. Þegar ég byrjaði í náminu datt mér til dæmis aldrei í hug að ég gæti unnið á snyrtistofu í Danmörku að náminu loknu og klárað nemasamninginn minn þar, eða að fá að taka þátt í Íslandsmóti Iðn-og verkgreina í snyrtifræði í Laugardalshöll, fara til Finnlands á vegum Erasmus+ og vinna á finnskri snyrtistofu í heilan mánuð svo að dæmi séu nefnd. Endalaus tækifæri sem hægt er að grípa ef áhuginn er fyrir hendi.

Framtíðarplön

Þar sem ég útskrifaðist af snyrtibraut í desember 2019 þá stefni ég á að klára nemasamninginn minn og taka síðan sveinsprófið að honum loknum í september 2020. Ég er flutt til Danmerkur og komin með nemasamning á mjög fínni stofu svo að það er draumur að rætast þar. Einnig stefni ég á að taka meistaranám í snyrtifræði og síðan ætla ég að opna snyrtistofu einn daginn en á leiðinni þangað langar mig að vaxa og dafna í mínu fagi og fara lengst út fyrir þægindarammann því að það er akkurat þar sem draumarnir verða að veruleika.

Lauk sveinsprófi í veggfóðrun og dúkalögn 2023
Ingunn Björnsdóttir
Klæðskeri
Elín Pálsdóttir (2021)
Húsasmiður
Númi Kárason (2019)
Bakari
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir (2019)
Vél- og rafvirki - og nemi í tölvunarfræði
Daníel Guðjónsson (2022)
Grafískur miðlari
Björk Marie Villacorta (2020)
Nemi í bílamálun
Alexander Arason (2021)
Rafeindavirki
Ásbjörn Eðvaldsson (2019)
Snyrtifræðingur
Magnea Óskarsdóttir (2020)